Hafa hestamenn gagn af hugarþjálfun?

-Hverju svarar Hinrik Þór Sigurðsson reiðkennari og fyrirlesari um hugarþjálfun?

4768
Hesturinn bregst við því sem við hugsum. Hinrik Þór Sigurðsson við kennslu. ©asdishar

Þjálfun hugarfars er víðfemt og stórt efni. Áhrif hugarþjálfunar geta því verð ótrúlega mikil og breytt árangri þjálfunartíma með hestinn okkar mjög mikið, hvort sem er við þátttöku í keppni, þjálfun eða almennar útreiðar.

Byrjum aðeins á byrjuninni og hugum að því hvað hugarþjálfun er og hvernig við getum notað hana til þess að bæta færni okkar í samskiptum við hestinn.

Heilinn á okkur er flókið fyrirbæri og stjórnar hegðun okkar og tilfinningum, þ.e hvernig við bregðumst við mismunandi aðstæðum. Það er ýmislegt sem hefur áhrif á viðbrögð okkar og hegðun svo sem stress, kvíði, eftirvænting, spenna, sjálfstraust, sjálfsmat og svo mætti lengi telja.

Hugarþjálfun í sinni einföldustu mynd leitast við að hjálpa okkur að ná stjórn á þessum atriðum í mismunandi aðstæðum, hjálpar okkur að vera upp á okkar besta þegar á reynir og mögulega beina út leiðina að settum markmiðum í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur.

Margir knapar kannast við hugsanir á borð við „hvað ef?“

Hvað ef hesturinn fælist við bílinn sem kemur?

Hvað ef hann verður spenntur?

Hvað ef ég dett af baki?

En ef hann fetar ekki hjá mér í fjórgangnum?

Þessar hugsanir, hver fyrir sig, birta okkur myndir af þessum aðstæðum og gera þær í raun raunverulegar fyrir okkur. Því málið er með þetta sérstaka og að mörgu leyti fullkomna verkfæri, sem heilinn er, að það gerir ekki nógan greinarmun á hlutum sem við upplifum í alvöru og þeim sem við ímyndum okkur.

Þess vegna er mikilvægt að velja hvaða myndir birtast okkur og stjórna þeim. Ég nefni oft dæmið um tvo spretthlaupara á leið í 100 m. hlaup. Annar þeirra kemur inn á brautina og hugsar „ég vona að ég tapi ekki“ og hinn hugsar „ég vill vinna“. Báðir meina í raun það sama, en myndin „ ég vona að ég tapi ekki“ birtist okkur allt öðruvísi en „ég vill vinna“. Prófið endilega sjálf kæru lesendur.

Sá sem segir „Ég vill vinna“ fer allt öðruvísi stilltur inn í hlaupið.

Mig langar að spjalla aðeins um nokkur atriði sem fyrir mér eru okkur hestamönnum einkar mikilvæg.

Hugurinn stýrir líkamstjáningu

Alveg sama hvað gengur á, þá er það þannig að að við getum ekki hugsað eina einustu hugsun án þess að það hafi áhrif á líkamstjáningu okkar. Allt sem við hugsum hefur á einn eða annan hátt áhrif á líkamstjáningu okkar, mismikið auðvitað, en alltaf eitthvað. Hestar eru skynugir á líkamstjáningu, enda er hún þeirra mikilvægasta samskiptatæki. Að þessu sögðu er það gríðarlega mikilvægt að hugsa um það sem við viljum ná fram, hugsa um það sem á að gerast með hverri ábendingu sem við gefum eða æfingu sem við framkvæmum. Og ekki hugsa um hluti sem eiga ekki að gerast. Ómeðvitað bregst líkami okkar við hverri hugsun og hesturinn bregst við því sem ábendingum.

Ég er alveg sannfærður um það að ef líkamstjáningin, stemningin sem við miðlum og búum til og þar með „tónninn“ í ábendingum okkar stemmir ekki við það sem ábendingin biður um, þýðir ábendingin ekki neitt fyrir hestinn.

Dæmi sem allir knapar hafa annað hvort séð eða lent í er til dæmis þegar hestur er spenntur, flýtir sér og knapinn situr jafn spenntur á baki, gólar „HÓ“ og togar í tauminn í krampa til þess að hægja á hestinum, en hesturinn hleypur bara samt. Sem sagt ábendingin þýðir ekkert fyrir hestinn nema tónninn stemmi við það sem beðið er um.

Þetta finnst mér vera lykilatriði í allri reiðmennsku. Hvernig ábendingin er gefin skiptir mun meira máli en hvaða ábending er gefin. Þarna liggur styrkur þess að hafa stjórn á hugarfarinu. Með öðrum orðum, hesturinn bregst við því sem við hugsum vegna þess að líkamstjáning, stemning og tónn í ábendingum breytist við hugsunina.

Mikilvægi þess að stjórna stemningunni

Að ríða hesti til afkasta á gangi, í keppni, fara í reiðtúr á fallegum degi, eða sigrast á hjöllum sem verða í þjálfuninni ræðst algjörlega af því að geta búið til stemningu í knapa og hesti sem passar hverju tilfelli.

Að geta stjórnað stemningu og þar með orkuflæði í hestinum er mikilvægt til þess að stilla hestinn í verkefnið sem fyrir liggur. Það er ljóst að hestur sem er að læra að fara sín fyrstu skref í krossgang þarf að vera öðruvísi stilltur en hestur sem er að leggja af stað í skeiðkappreiðar til dæmis. Eða fimmgangshestur í keppni sem þarf að vera rólegur og spennulaus (eins og auðvitað er grunnur að allri þjálfun), geta fetað vel, tölt og brokkað í jafnvægi og svo fara alvöru skeiðspretti nánast í sömu andrá.

Að geta stýrt því á hvaða ákafa hesturinn vinnur er þar að auki einn af mikilvægu lyklunum að því að hesturinn haldi líkamlegri heilsu og nái háum aldri. Að hann slíti sér ekki út of snemma.

Munum að það sem við hugsum um í kringum hestinn hefur áhrif á líkamstjáningu okkar og það skynjar hesturinn.

Hvernig stjórna ég þá þessari stemningu?

Stutta svarið er, einfaldlega með því að haga þér eins og þú villt að hesturinn þinn sé. Knapi sem fer alveg rólegur inn í þjálfunartíma með hesti sínum er með mun rólegri hest en sá sem fer stressaður inn í þjálfunartíma. Virkar voðalega augljóst, en ekki alltaf alveg eins létt og að segja það.

Það sem oft gerist er að hesturinn nær að gera knapann líkan sjálfum sér, þ.e. ef hesturinn er spenntur er mjög vanalegt að knapinn verði eins, og þar með er knapinn búinn að missa stjórnina á stemningunni í þjálfunartímanum.

Fyrir knapann er mikilvægt að hafa útkomuna í huga, hugsa um markmiðið með hverri æfingu, búast við því sem á að gerast og ekki öðru. Þetta tekst ekki alltaf 100%, en hvert skipti sem okkur tekst það er það sigur.

Æfingin skapar meistarann

Við verðum góð í öllu sem við æfum, og með það í huga er ágætt að æfa sem mest það sem á að verða gott.

Ég segi oft frá góðum vini mínum sem er alveg ótrúlega flinkur í því að syngja falskt. Hann elskar að syngja, og æfir sig daglega og það mikið. En hann er búinn að æfa sig svo mikið og svo lengi að syngja falskt að það er mikið mál að breyta því.

Ég segi ekki að hver reiðtúr þurfi að líta út eins og maður sé að fara í stórmót, alls ekki. En það er mikils virði að hugsa sig aðeins um þegar maður þjálfar hestinn sinn og spyrja sig „hvað er ég að æfa?“ „Er þessi æfing nógu góð til þess að skila mér einhverju?“ Ef svarið er já þá er um að gera að halda áfram að æfa það. Ef svarið er hins vegar „nja, ekki alveg“ þá ætti maður að skipta um taktík og æfa eitthvað annað. Til dæmis ef hesturinn fer alltaf spenntur af stað, að prufa nýja nálgun, aðra upphitun, aðrar æfingar sem eru þá líklegar til að skila meiri ró. Það er ekki gott að hesturinn fái að æfa sig mikið í að hendast af stað alltaf í spennu ekki satt?

Til þess að ná árangri í þjálfun sinni og hestsins er gott að búa sér til rútínur sem eru uppbyggilegar, vera opinn fyrir því að prufa aðra nálgun ef þjálfunin er ekki að þróast í rétta átt, athuga aðeins hvað er ég búinn að vera að æfa?

Æfum í huganum

Eins og nefnt var hér að ofan er heilinn okkar flókið, en alls ekki fullkomið líffæri. Það sem er alveg magnað með hann er að hann gerir ekki almennilega greinarmun á raunverulegri upplifun og ímyndun.

Þess vegna er alveg ótrúlega öflug æfing að „ríða út“ í huganum. Ímynda sér þjálfunartímann, prógrammið í keppni, eða hvað sem við ætlum að fara að gera. Fara í gegnum þjálfunartímann skref fyrir skref, ímynda sér æfinguna, ábendingarnar, stemninguna, reyna að finna útkomuna. Meira segja bara það að sjá sjálfa(n) sig fyrir sér ánægða(n) eftir vel heppnaða þjálfun er alveg frábær undirbúningur. Við köllum fram myndir í höfðinu á okkur sem eru jákvæðar, og þegar í sjálfan þjálfunartímann er komið þekkir heilinn á okkur aðstæðurnar, hann hefur verið þarna áður og þá gekk þrusuvel. Maður býr sér til góða tilfinningu fyrir tímann og þess vegna er maður mun betur undirbúinn að bregðast við því sem fram fer í þjálfunartímanum sjálfum.

Ef myndirnar sem birtast okkur verða neikvæðar, höldum áfram að fara í gegnum hlutina þangað til við getum framkallað jákvæða mynd. Þessu ættu allir knapar að hafa mikið gagn af hvort sem keppni er á dagsskrá þann daginn, að fara í reiðtúr, eða sigrast á hræðslu eða kvíða.

Hræðsla og kvíði

En hvernig getum við haft létta stemningu ef við erum að kljást við hræðslu eða kvíða? Það er í eðli okkar að kvíða til dæmis því hvað öðrum finnst um okkur. En hver setur kröfurnar? Aðallega við sjálf. Kvíði tengist sjálfstrausti og aðstæðum sem við teljum okkur ekki geta uppfyllt. Þá er um að gera að breyta aðstæðum.

Það er ekki hægt að hugsa sig óhræddan heldur verðum við að mæta hræðslunni.

En hvernig er þá hægt að öðlast nægt sjálfstraust til að vinna á kvíðanum? Sjálfstraustið fær maður með æfingu. Við þurfum að setja okkur í aðstæður og æfa okkur í að bregðast við þeim. Við þurfum að þekkja aðstæðurnar.

Allir kvíða einhverju, en ef kvíði er lítill er hægt að kalla hann eftirvæntingu. Ef hann fer yfir ákveðin mörk er hann lamandi.

Gott er að fara í reiðtúr í huganum og hugsa hvernig við ætlum að bregðast við ef hesturinn verður spenntur. Við öndum ofan í maga og róum okkur. Við leysum viðfangsefnið í huganum. Þar með höfum við leyst vandann. Þetta þarf að æfa nokkrum sinnum.

Í fyrsta lagi þurfum við að athuga hvert er okkar sjálfsálit eða sjálfsmynd og í öðrum lagi sjálfstraustið. Hvernig er ég? Hvernig bregst ég við?

En ekkert toppar reynsluna og alltaf þarf að tryggja aðstæður. Tökum eitt skref í einu. Ýtum undir góðar tilfinningar og gerum eitthvað til að undirstrika þær. Munum að það sem við hugsum um í kringum hestinn hefur áhrif á líkamstjáningu okkar og það skynjar hesturinn.

Fyrri greinValhopp
Næsta greinFóðrun hrossa almennt ekki byggð á heyefnagreiningu